Velkomin í Litlu menntabúðina!

Litla menntabúðin er lifandi og persónulegt þekkingarsetur sem býður upp á starfsþróun fyrir fyrir fólk sem vill efla sig.

Við starfrækjum námskeið sem auðga gleði og færni og veita þátttakendum tækifæri til að ferðast, læra og njóta. 

Litla menntabúðin er staðsett í Reykholti, Borgarfirði – höfuðbóli íslenskrar menningar – og er starfsemi hennar samofin sögu staðarins ásamt því að vera í nánu samstarfi við Snorrastofu.

Námskeiðin byggjast á jafningjafræðslu, þar sem þátttakendur læra hver af öðrum, og fáum við til liðs við okkur ýmsa kennara sem skara fram úr á sínu sviði.

Sögulegt umhverfið og fjölbreytt náttúran eru til þess fallin að veita þátttakendum innblástur, sem og kyrrð og ró í hjarta en helsta markmið Litlu menntabúðarinnar er að þátttakendur snúi aftur, endurnærðir á líkama og sál.

Litla menntabúðin er starfrækt allt árið um kring og eru námskeiðin auglýst hér á vefnum, þar sem skráning fer jafnframt fram.

Við tökum einnig að okkur að skipuleggja námskeið fyrir hópa, með sérstökum óskum um efnistök og kennara.

Námskeið

Hópanámskeið

Í Borgarbyggð er mikill mannauður á hverjum bæ. Litla menntabúðin er svo heppin að hafa fengið til liðs við sig þrjár kjarnakonur úr byggðinni sem ætla að sjá um námskeiðsdaga fyrir hópa.

Efnistök telja meðal annars lært í gegnum leik, útikennslu, framsögn og leiðtogafræði/jákvæð sálfræði.

Gist er á Fosshóteli ef þess er óskað og hægt er að fara í spa í Krauma. Einnig er hægt að skipuleggja heimsókn á hestabúgarð, leiðsögn um héraðið, hellaferðir, handverkstæði og svo mætti lengi telja.

Híbýli vindanna og Lífsins tré

September 2020. Dagsetning auglýst síðar.

Litla menntabúðin kynnir með stolti! Í samstarfi við MUNDO og Safnahús Borgarfjarðar:

Farið er um söguslóðir vesturfaranna í Síðunni, sagðar sögur um hugsanlegar fyrirmyndir og bankað upp á bæjum og í kirkjum í fylgd heimamanna og skáldsins, Böðvars Guðmundssonar.

Sögustund og kvöldvaka við arineld á Hótel Á, æskustöðvum Böðvars, þar sem góðir gestir stíga á stokk. Þátttakendur komast að í samræðum og vangaveltum um hvað sé satt og hverju logið en þó líklega án þess að komast að niðurstöðu.

Einingakubbar

Dagsetning auglýst síðar

Kristín Einarsdóttir fjallar um einingakubba (Unit Blocks) og heimspekina sem liggur að baki þeim, með fyrirlestrum, verkefnum, umræðum og vettvangsferðum. Efnistök grundvallast á gagnsemishyggju John Dewey, Caroline Pratt, og Harriet K.Cuffaro sem og reynslu á íslenskum leikskólum. Auk þess mun starfsfólk Snorrastofu leggja til fræðslu í tengslum við Reykholt og sögu staðarins.

Svæði mögulegs þroska

Dagsetning auglýst síðar

Svava Björg Mörk fer yfir leiðir til að takast á við og tækla hraða og streitu nútímasamfélags. Þátttakendur hljóta þjálfun í að staldra við, líta inn á við og finna neistann sem þarf til að tendra í lífskjarnanum. Með því að opna fyrir þennan möguleika, opnum við nýttsvæði innra með okkur – svæði mögulegs sjálfsþroska og lífsgleði. Auk þess mun starfsfólk Snorrastofu leggja til fræðslu í tengslum við Reykholt og sögu staðarins.

Útistærðfræði

Dagsetning auglýst síðar

Ingileif Ástvaldsdóttir fjallar um hugmyndafræði útistærðfræði og hlutverk kennarans við vinnslu verkefna. Efnistök byggja að mestu á vinnslu verkefna utandyra þar sem þátttakendur prófa verkefnin í hópum og ræða reynslu sína ásamt því aðvelta fyrir sér hvernig þau muni nýtast í daglegu starfi. Auk þess mun starfsfólk Snorrastofu leggja til fræðslu í tengslum við Reykholt og sögu staðarins

Upplýsingatækni

Dagsetning auglýst síðar

Fjóla Þorvaldsdóttir fer yfir hvernig hægt er að nýta upplýsingatækni á skapandi hátt í leikskólastarfi. Þátttakendur vinna saman, læra vel á ákveðin smáforrit, uppgötva og gefa sér nægan tíma til þess að ræða reynslu sína og velta vöngum yfir því hvernig upplýsingatækni muni nýtast þegar til baka í starfið er komið. Auk þess mun starfsfólk Snorrastofu leggja til fræðslu í tengslum við Reykholt og sögu staðarins.

Núvitund og jóga

Dagsetning auglýst síðar

Hulda Jóhannsdóttir fer yfir hugmyndafræði jóga og núvitundar í skólastarfi og kennir einfaldar aðferðir til að innleiða þessa þætti í starfið, börnum og starfsfólki til heilla. Þátttakendum er boðið upp á næringu fyrir huga, líkama og sál í dásemdar jógatímum, hugleiðslu og núvitund, bæði úti og inni. Auk þess mun starfsfólk Snorrastofu leggja til fræðslu í tengslum við Reykholt og sögu staðarins.

Hafa samband