Híbýli vindanna og Lífsins tré

September 2020. Dagsetning auglýst síðar.

Litla menntabúðin kynnir með stolti! Í samstarfi við MUNDO og Safnahús Borgarfjarðar:

Farið er um söguslóðir vesturfaranna í Síðunni, sagðar sögur um hugsanlegar fyrirmyndir og bankað upp á bæjum og í kirkjum í fylgd heimamanna og skáldsins, Böðvars Guðmundssonar.

Dvalið er á Hótel Á á Kirkjubóli, æskustöðvum Böðvars.

Dagskrá

Laugardagur

09.30 Mæting á Hótel Á á Kirkjubóli.

10.00 Námskeiðið hefst og Böðvar Guðmundsson ávarpar samkomuna.

11.45 Hádegisverður.

12.30 Ferðalag um ágiskaðar söguslóðir. Áð á völdum stöðum þar sem sögur úr skáldskapnum og raunveruleikanum verða sagðar og lesnar.

15:00 Áning í Brúarási þar sem verður myndasýning og hressing.

16:00 Haldið áfram í söguferð niður Síðuna og endað á Kirkjubóli.

18.30 Þriggja rétta kvöldverður. 

Sögustund og kvöldvaka við arineld á Hótel Á, þar sem góðir gestir stíga á stokk. Þátttakendur komast að í samræðum og vangaveltum um hvað sé satt og hverju logið en þó líklega án þess að komast að niðurstöðu.

Sunnudagur

09.00 Morgunverður.

10:00 Gestir fara á sínum bílum í Reykholt þar sem verður sögustund í gömlu kirkjunni undir leiðsögn Guðrúnar Jónsdóttur frá Safnahúsi Borgarfjarðar.

11.00 Fara gönguþyrstir að Norðurreykjum í fylgd Þórunnar Reykdal reima á sig gönguskóna og ganga inn að Suddu þar sem lýsingar eiga við Seyru í bókunum. Það er gengið á slóða og eru um 5 kílómetrar alls.

Námskeiði lýkur.

Skipuleggjendur námskeiðsins er heimafólk

Ingibjörg Daníelsdóttir, kennari og bóndi á Fróðastöðum, hefur búið alla ævi í Síðunni eins og Hvítársíðan er nefnd í daglegu tali. Hún þekkir hverja þúfu og hverja sögu eins og lófann á sér. Kannski eru Fróðastaðir undir öðru nafni í sögunum? Ef hún hefði verið uppi fyrir 150 árum hefði hún tekið vel á móti móður á langri göngu að vitja barnsins síns, sem var vistað í margra klukkutíma göngufæri frá henni.

Þórunn Reykdal, kennari og leiðsögumaður, býr handan Hvítár á Arnheiðarstöðum og hefur sama sjónarhól á Síðuna heiman frá sér og fólkið í Seyru, ef Seyra er Sudda. Hún hefur gengið allar götur ófærar eða ekki og tekur eftir með berum augum eða í gegnum myndavélalinsu.

Ingibjörg Kristleifsdóttir og Halldór Gísli Bjarnason eru kennarar og reka Litlu menntabúðina. Hún er frá Húsafelli, hvaðan afasystir hennar strauk með unnustanum úr Miðfirði og hver veit hvaða áhrif hennar lífshlaup hefur á sögurnar?

Ragnar Sigurðsson á Kirkjubóli er barnabarn Guðmundar Böðvarssonar og því má spyrja sig hvort hann sé barnabarnabarnabarn fyrirmynda Ólafs fíóln og Steinunnar? Hann er með staðinn og sögurnar í æðunum hefur ræktað skóg með annarri hendi og reist hótel með hinni á milli þess sem hann smíðar hús og eldar dýrindis máltíðir.

Yfir okkur vakir svo skáldið Böðvar Guðmundsson sem hefur lagt blessun sína yfir tiltækið og verður heiðursgestur helgarinnar.

Myndasafn

Skráning og verð

Verð auglýst síðar

Innifalið:

   • Gisting í tveggja manna herbergi
   • 2ja rétta hádegisverður
   • Síðdegishressing
   • 3ja rétta kvöldverður
   • Morgunverður
   • Nesti í gönguferð
   • Rúta á söguslóðir á laugardag
   • Leiðsögn, skemmtun og fræðsla

Ekki innifalið:

   • Drykkir (en eru á afar sanngjörnu verði)

Skráning fer fram á litlamenntabudin@heimskringlan.is

Staðfestingargjald er óafturkræft, og hámarksfjöldi þátttakenda er 30.

Námskeiðið er opið öllum áhugasömum.