Dagsetning auglýst síðar
Kennari: Fjóla Þorvaldsdóttir
Á námskeiðinu er farið yfir hvernig hægt er að nýta upplýsingatækni á skapandi hátt í leikskólastarfi og verður sagan og umhverfið í Reykholti nýtt til hins ýtrasta.
Námskeiðið verður sambland af fræðslu og verklegum smiðjum þar sem þátttakendur vinna saman, læra vel á ákveðin smáforrit, uppgötva og gefa sér nægan tíma til þess að ræða reynslu sína og velta vöngum yfir því hvernig upplýsingatækni muni nýtast þegar til baka í starfið er komið.
Ef þátttakendur hafa aðgang að iPad er upplagt að hafa hann með á námskeiðið og vera búin að ná í tiltekin öpp sem send verða í tölvupósti áður en námskeiðið hefst.
Fjóla Þorvaldsdóttir hefur áratuga reynslu af því að nýta upplýsingatækni í leikskólastarfi og heldur hún m.a. úti vefnum Fikt – Námsvef um upplýsingatækni fyrir kennara í leikskólum og á yngsta stigi grunnskóla.
Auk þess mun starfsfólk Snorrastofu leggja til fræðslu í tengslum við staðinn og sögu hans.
Dagskrá
Gist er á Fosshóteli í Reykholti. Reykholt er í um 30 mínútna akstursfjarlægð frá Borgarnesi. Á hótelinu eru heitir pottar og gefst þar tími til slökunar og uppfræðandi semveru. Auk þess kalla göngustígar um skógræktina á nærandi útivist.
Fosshótel býður þátttakendum upp á framlengingu á dekurhelgi á vildarkjörum. Þeir sem vilja þiggja það hafa beint samband við Fosshótel.
Fimmtudagur
10:00 Mæting í Heimskringlu – gamla Héraðsskólann. Heitt kakó og heimskringla. Búðarstjórar bjóða þátttakendur velkomna og afhenda sviðið til kennara. Námskeið hefst.
12:40 Hádegishlé. Súpa og brauð í boði Litlu menntabúðarinnar.
13:15 Námskeið.
15:30 Kaffistund.
Námskeið. Misjafnt er hversu lengi kennt er fram eftir degi en gert er ráð fyrir að þátttakendur geti farið í gönguferð og heita potta fyrir kvöldverð.
19:00 Hátíðarkvöldverður í boði Litlu menntabúðarinnar
Föstudagur
Morgunverður á hótelinu. Árrisulir geta t.d. fengið sér göngutúr um svæðið.
09:00 Námskeið.
12:00 Hádegishressing í boði Litlu menntabúðarinnar. Námskeiði slitið.
Þátttakendur eru beðnir um að vera útbúnir fyrir vetrarveður og hafa í huga að veður er aldrei vont, við erum bara stundum illa klædd.
Sundföt er staðalbúnaður í potta og fyrir þá sem ætla að framlengja í dekurhelgi má benda á dásamlegar laugar á Húsafelli og í Krauma við Deildartunguhver.
Skráning og verð
Upplýsingar um skráningu og verð fást á litlamenntabudin@heimskringlan.is eða í síma 845-1414 (Halldór) og 699-1131 (Ingibjörg).