Útistærðfræði

Dagsetning auglýst síðar

Kennari: Ingileif Ástvaldsdóttir

Námskeiðið byggir á verkefnum úr stærðfræðibókunum Stærðfræði undir berum himni sem komu út í íslenskri þýðingu árið 2011. Bækurnar komu fyrst út á norsku árið 2002. Bækurnar og verkefnin eru fyrir nemendur í 1.-7. bekk en verkefnin má hæglega aðlaga að bæði nemendum á leikskóla- og unglingastigi.

Á námskeiðinu verður farið yfir hugmyndafræði verkefnanna og hlutverk kennarans við vinnslu þeirra. Efnistök byggja að mestu á vinnslu verkefna utandyra þarsem þátttakendur prófa verkefnin í hópum og ræða reynslu sína ásamt því aðvelta fyrir sér hvernig þau muni nýtast í daglegu starfi.

Ingileif Ástvaldsdóttir er leiðbeinandi námskeiðsins og annar þýðenda Stærðfræði undir berum himni. Ingileif starfar sem skólastjóri Þelamerkurskóla, þar sem er löng hefð fyrir útikennslu og skólastarfi sem tekur mið af nærumhverfi sínu.

Auk þess mun starfsfólk Snorrastofu leggja til fræðslu í tengslum við staðinn og sögu hans.

Dagskrá

Gist er á Fosshóteli í Reykholti. Reykholt er í um 30 mínútna akstursfjarlægð frá Borgarnesi. Á hótelinu eru heitir pottar og gefst þar tími til slökunar og uppfræðandi semveru. Auk þess kalla göngustígar um skógræktina á nærandi útivist. 

Fosshótel býður þátttakendum upp á framlengingu á dekurhelgi á vildarkjörum. Þeir sem vilja þiggja það hafa beint samband við Fosshótel.

Fimmtudagur

10:00 Mæting í Heimskringlu – gamla Héraðsskólann. Heitt kakó og heimskringla. Búðarstjórar bjóða þátttakendur velkomna og afhenda sviðið til kennara. Námskeið hefst.

12:40 Hádegishlé. Súpa og brauð í boði Litlu menntabúðarinnar.

13:15 Námskeið.

15:30 Kaffistund.

Námskeið. Misjafnt er hversu lengi kennt er fram eftir degi en gert er ráð fyrir að þátttakendur geti farið í gönguferð og heita potta fyrir kvöldverð.

19:00 Hátíðarkvöldverður í boði Litlu menntabúðarinnar

Föstudagur

Morgunverður á hótelinu. Árrisulir geta t.d. fengið sér göngutúr um svæðið.

09:00 Námskeið.

12:00 Hádegishressing í boði Litlu menntabúðarinnar. Námskeiði slitið.

Þátttakendur eru beðnir um að vera útbúnir fyrir vetrarveður og hafa í huga að veður er aldrei vont, við erum bara stundum illa klædd. Mælt er sérstaklega með kraftgalla fyrir tiltekið námskeið.

Sundföt er staðalbúnaður í potta og fyrir þá sem ætla að framlengja í dekurhelgi má benda á dásamlegar laugar á Húsafelli og í Krauma við Deildartunguhver.

Skráning og verð

Upplýsingar um skráningu og verð fást á litlamenntabudin@heimskringlan.is eða í síma 845-1414 (Halldór) og 699-1131 (Ingibjörg).