Ingibjörg og Halldór

Búðarstjórar eru hjónin og kennararnir Ingibjörg Kristleifsdóttir og Halldór Gísli Bjarnason.

Ingibjörg er með leyfisbréf til kennslu í grunn- og leikskóla, diploma í stjórnun og uppeldis- og menntunarfræði.

Ásamt því að hafa starfað sem leikskólastjóri á ýmsum leikskólum var hún kjörinn varaformaður Félags leikskólakennara á árunum 2008-2010 og formaður Félags stjórnenda leikskóla frá stofnun þess félags árið 2010.

Auk þess að semja um kaup og kjör og gæta hagsmuna félagsmanna hefur Ingibjörg tekið þátt í samstarfi um ýmis málefni, m.a. um starfsþróun kennara og skólastjórnenda og eflingu leikskólastigsins.

Hún hefur einnig tekið virkan þátt í alþjóðasamskiptum með kennurum og stjórnendum um praktík og pólitík.

Halldór er menntaður sjúkraliði, þroskaþjálfi, íþrótta-, grunn- og framhaldsskólakennari og hefur starfað við sérkennslu stóran hlutastarfsævinnar. Meðal annars hefur hann staðið að íþróttakennslu fyrir börn og starfað við sumarbúðir ÍF á Laugavatni svo árum skiptir.

Halldór er einn af frumkvöðlum að stofnun starfs eða sérnámsbrauta á framhaldsskólastigi og síðustu 14 árin hefur hann kennt við Fjölbrautaskólann við Ármúla.

Halldór og Ingibjörg störfuðu við ferðaþjónustu á Húsafelli öll sumur til síðustu aldamóta meðfram námi og starfi. Þau hafa verið gift í 37 ár og eiga fjögur sett af sonum og tengdadætrum og sex barnabörn.

Einlægur áhugi þeirra á menntun og skólastarfi er drifkraftur Litlu menntabúðarinnar. Þau þekkja vel skólastarf og þörf þeirra sem þar starfa, sem og á hvaða vettvangi sem er, fyrir hagnýt starfsþróunartilboð.

Nýverið fluttu þau á æskuslóðir Ingibjargar og bjóða nú gestum að njóta menntunar, menningar og upplyftingar á líkama og sál í Litlu menntabúðinni.